Í sumar voru starfsmenn Sjótækni við fjölgeislamælingar á Ölfusá við Selfoss með fjarstýrðum mælingabát fyrirtækisins. Unnið var við kortlagningu á botni árinnar til að hægt væri að átta sig betur á hvernig botninn liti út og hvert dýpið væri. Báturinn reyndist vel við mælingar í ánni þrátt fyrir mikinn straum og mikið grugg í vatninu og náðist að kortleggja botn árinnar nokkuð vel.
Sjótækni hefur í samstarfi við Tálknafjarðarskóla tekið á móti nemendum í starfskynningu í haust og síðustu tvo miðvikudaga komu þeir Alexander og Arnór til okkar.
Við kynntum fyrir þeim starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýndum þeim tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars sýndi Mariusz, einn af köfurunum okkar, þeim búnað sem kafararnir nota og hvernig hann virkaði. Síðan fór Marteinn skipstjóri með þeim um borð í Össuna og sýndi þeim skipið og hvað væri verið að gera þar um borð. Seinni miðvikudaginn var svo farið með strákana á Bíldudal og þeim boðið um borð í Kafara BA þar sem starfsmenn Sjótækni voru að vinna við lagnir í Bíldudalshöfn. Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri Sjótækni sýndi þeim verkið og leyfði þeim að máta belti og kúta sem kafararnir bera á sér þegar þeir vinna við köfun. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Arnóri og Alexander fyrir komuna og vonum að þeir hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.
Tálknafjarðarskóli tók upp samstarf við fyrirtæki á Tálknafirði síðastliðinn vetur um að taka á móti skólabörnum í starfskynningar þar sem þau kynntust starfsemi fyrirtækjanna og þeim verkefnum sem unnið er að í hverju fyrirtæki fyrir sig. Vegna Covid-19 féllu þessar heimsóknir niður seinnipart vetrar en hófust að nýju með haustinu.
Við hér hjá Sjótækni tókum á móti fyrsta hópnum í byrjun september þegar þær Berglind, Ola og Ólöf komu til okkar. Þeim var kynnt starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýnd tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars var þeim sýndur búnaður kafaranna og afþrýstiklefinn sem Sjótækni á og þær fengu að fara inn í hann til að skoða hann betur. Í seinni heimsókninni var þeim svo boðið um borð í Össu BA, eitt af skipum Sjótækni sem lá við bryggju á Tálknafirði. Þar tók Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri á móti þeim og sýndi þeim skipið og kynnti fyrir stelpunum verkefnin sem nota á skipið í og sýndi þeim meðal annars ljósleiðara sem á að leggja austur á fjörðum á næstunni. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Berglindi, Olu og Ólöfu fyrir komuna og vonum að þær hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.