Tálknafjarðarskóli tók upp samstarf við fyrirtæki á Tálknafirði síðastliðinn vetur um að taka á móti skólabörnum í starfskynningar þar sem þau kynntust starfsemi fyrirtækjanna og þeim verkefnum sem unnið er að í hverju fyrirtæki fyrir sig. Vegna Covid-19 féllu þessar heimsóknir niður seinnipart vetrar en hófust að nýju með haustinu.
Við hér hjá Sjótækni tókum á móti fyrsta hópnum í byrjun september þegar þær Berglind, Ola og Ólöf komu til okkar. Þeim var kynnt starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýnd tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars var þeim sýndur búnaður kafaranna og afþrýstiklefinn sem Sjótækni á og þær fengu að fara inn í hann til að skoða hann betur. Í seinni heimsókninni var þeim svo boðið um borð í Össu BA, eitt af skipum Sjótækni sem lá við bryggju á Tálknafirði. Þar tók Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri á móti þeim og sýndi þeim skipið og kynnti fyrir stelpunum verkefnin sem nota á skipið í og sýndi þeim meðal annars ljósleiðara sem á að leggja austur á fjörðum á næstunni. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Berglindi, Olu og Ólöfu fyrir komuna og vonum að þær hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.