Nýr vinnubátur Sjótækni, Valur, kom til hafnar í Reykjavíkurhöfn í gær og var gestum boðið að koma og skoða bátinn af því tilefni. Margir lögðu leið sína um borð um í bátinn og óskuðu Kjartani J. Haukssyni, framkvæmdastjóra Sjótækni og áhöfn hans til hamingju með nýja bátinn. Framundan er síðan sigling til Tálknafjarðar í dag og vonast er til að hægt verði að bjóða Tálknfirðingum og nærsveitungum að koma og skoða bátinn á morgun, föstudag. Meðfylgjandi myndir voru teknar í móttökunni um borð í Val í gær.
Nýr vinnubátur Sjótækni, Valur, kom til landsins um helgina og var hífður frá borði flutningaskips í Berufirði á sunnudaginn. Framkvæmdastjóri Sjótækni, Kjartan J. Hauksson tók á móti bátnum ásamt starfsmönnum Sjótækni, þeim Guðbjarti Ásgeirssyni, þjónustustjóra og Marteini Þór Ásgeirssyni, útgerðarstjóra. Þeir sigldu síðan bátnum til hafnar á Djúpavogi þar sem var tekinn kostur og olía og síðan héldu þeir af stað til Vestmannaeyja sem var fyrsti áfangi á leið vestur til Tálknafjarðar. Kjartan er skipstjóri í ferðinni, Marteinn yfirstýrimaður og Guðbjartur yfirvélstjóri og þeir sögðu bátinn hafa reynst vel í þessari fyrstu siglingu við Íslandsstrendur og ferðin til Eyja gekk vel þrátt fyrir leiðinda veður á leiðinni.
Valur er öflugur vinnubátur sem sinnt getur þjónustu við fiskeldismannvirkin og unnið við uppsetningu nýrra kvía og festinga þeirra ásamt margskonar öðrum verkefnum sem Sjótækni fæst við. Vinnubáturinn er af gerðinni Catamaran NABCAT 1510 DD frá Moen Marin í Noregi og er 15 m langur og 10 m breiður. Vinnubáturinn er tvíbytna og búinn öflugum vélum ásamt krönum og búnaði til að setja út og strekkja kerfisfestingar fyrir kvíar. Góð aðstaða er fyrir áhöfnina um borð og fór vel um áhöfnina í þessari fyrstu siglingu bátsins frá Djúpavogi til Vestmannaeyja. Stefnt er á að sigla bátnum til Reykjavíkur og þaðan vestur á Tálknafjörð um leið og veður leyfir. Um leið og Valur kemur vestur fer hann í verkefni í Dýrafirði á vegum Arctic fish.
Undanfarnar vikur hefur báturinn Kafari BA verið í slipp í Njarðvík í viðgerðum og endurbótum. Gert var við skrúfuna sem hafði látið á sjá, spilið yfirfarið og lagfært og vatnstankur hreinsaður. Einnig voru endurbætur á rekkverki og síðustykki bátsins sem var fært lítillega út ásamt endurbótum á stýrishúsi og gluggum á stýrishúsinu. Að síðustu var Kafari BA málaður hátt og lágt.
Kafari BA var smíðaður á Seyðisfirði 1979 og þjónaði sem ferja milli Árskógsstrandar og Hríseyjar í upphafi en frá 2008 hefur hann verið skráður sem rannsóknarskip og hefur verið notaður í margvíslegum verkefnum hjá Sjótækni svo sem við köfun, lagningu sæstrengja og eftirlit með lögnum í sjó fyrir ýmsa aðila um allt land.
Kafari BA var sjósettur í Njarðvík í morgun, 04. mars eftir viðgerðirnar og fer beint í verkefni sem bíða hans. Svo skemmtilega vill til að nýr bátur Sjótækni, Valur, sem smíðaður er í Noregi var einnig að koma úr slipp úti í Noregi og var settur um borð í flutningaskip í morgun sem mun flytja hann til Íslands.