Kafbátur hjá Sjótækni

Kafbáturinn á þilfarinu á Kafara BA tilbúinn í verkefni
Kafbáturinn á þilfarinu á Kafara BA tilbúinn í verkefni
1 af 5

Eitt af þeim tækjum sem Sjótækni á og rekur er kafbáturinn okkar sem er notaður til að taka myndir af sæstrengjum, kvíum og öðrum mannvirkjum sem eru neðansjávar. Oft er fljótlegra að nota kafbátinn til að mynda slík mannvirki en að senda kafara niður til þess og oft eru þessi mannvirki á meira dýpi en kafarar ráða við með góðu móti.

Á dögunum voru starfsmenn Sjótækni úti í Vestmannaeyjum þar sem myndaðar voru lagnir fyrir HS Veitur og þá kom kafbáturinn okkar að góðum notum við að skoða legu lagnanna og ástand þeirra á sjávarbotninum. Meðfylgjandi myndir eru teknar við ýmis tækifæri við notkun kafbátsins í sumar auk Vestmannaeyja.

Framkvæmdir á Bíldudal

Áhöfn Kafara BA að velta fyrir sér bestu útfærslu á verkefninu
Áhöfn Kafara BA að velta fyrir sér bestu útfærslu á verkefninu
1 af 3

Í haust unnu starfsmenn Sjótækni við að leggja röralagnir í höfninni á Bíldudal í tengslum við starfsemi Arnarlax. Vinnan var flókin og margþætt, meðal annars þurfti að sjóða saman rörin, setja á þau steinsökkur til að sökkva rörunum og koma síðan öllu á sinn stað. Við frágang lagnanna við bryggjuna þurfti síðan að koma rörunum í gegnum stálþilið sem er verið að reka niður og festa þau. Við vinnuna voru notuð ýmis tól og tæki, gröfur og kranar auk kafara og suðumanna að ógleymdum bátnum Kafara BA sem nýtist vel í svona verkefnum.

Síðustu starfskynningarnar í haust

Guðbjartur, Ísabella og Anika fyrir framan afþrýstiklefa Sjótækni
Guðbjartur, Ísabella og Anika fyrir framan afþrýstiklefa Sjótækni
1 af 2

Sjótækni hefur í samstarfi við Tálknafjarðarskóla tekið á móti nemendum í starfskynningu í haust og síðustu tvo miðvikudaga komu þær Ísabella og Anika í heimsókn til okkar.

Við kynntum fyrir þeim starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýndum þeim tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars sýndi Guðbjartur þeim afþrýstiklefann og útskýrði notkun hans. Seinni daginn kenndi Guðbjartur þeim að hnýta hnúta og sýndi þeim hvernig á að splæsa saman línur. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Ísabellu og Aniku fyrir komuna og vonum að þær hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.

Starfskynningum nemenda í Tálknafjarðarskóla hjá Sjótækni er lokið þetta haustið og við viljum þakka Tálknafjarðarskóla fyrir framtakið og vonum að allir hafi haft gagn og gaman af heimsóknunum til okkar. Við vonum að framhald verði á þessum starfskynningum og hlökkum til að kynna fleiri krökkum starfsemi okkar á næstu árum.