Síðustu starfskynningarnar í haust

Guðbjartur, Ísabella og Anika fyrir framan afþrýstiklefa Sjótækni
Guðbjartur, Ísabella og Anika fyrir framan afþrýstiklefa Sjótækni
1 af 2

Sjótækni hefur í samstarfi við Tálknafjarðarskóla tekið á móti nemendum í starfskynningu í haust og síðustu tvo miðvikudaga komu þær Ísabella og Anika í heimsókn til okkar.

Við kynntum fyrir þeim starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýndum þeim tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars sýndi Guðbjartur þeim afþrýstiklefann og útskýrði notkun hans. Seinni daginn kenndi Guðbjartur þeim að hnýta hnúta og sýndi þeim hvernig á að splæsa saman línur. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Ísabellu og Aniku fyrir komuna og vonum að þær hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.

Starfskynningum nemenda í Tálknafjarðarskóla hjá Sjótækni er lokið þetta haustið og við viljum þakka Tálknafjarðarskóla fyrir framtakið og vonum að allir hafi haft gagn og gaman af heimsóknunum til okkar. Við vonum að framhald verði á þessum starfskynningum og hlökkum til að kynna fleiri krökkum starfsemi okkar á næstu árum.

Mælingar í Vestmannaeyjum

Starfsmenn Sjótækni við mælingar í Vestmannaeyjahöfn
Starfsmenn Sjótækni við mælingar í Vestmannaeyjahöfn
1 af 2

Starfsmenn Sjótækni unnu við fjölgeislamælingar í Vestmannaeyjahöfn fyrir Vestmannaeyjabæ ásamt því að skoðaðir voru sæstrengir og lagnir milli lands og Eyja. Við fjölgeislamælingarnar var notaður fjarstýrður mælingabátur Sjótækni af gerðinni Otter pro 3 frá norska fyrirtækinu Maritime. Fjölgeislatæki bátsins myndar allt að 165°breiðan geisla undir bátnum og nær því góðum myndum af botninum og því sem þar er að sjá.

Milli lands og Eyja liggja sæstrengir fyrir ljósleiðara og rafmagn ásamt vatnslögnum og reglulega þarf að fylgjast með ástandi þessar lagna. Við skoðun á þeim var notaður fjarstýrður kafbátur í eigu Sjótækni af gerðinni Spectre en hann er búinn hágæða myndavél ásamt staðsetningarbúnaði og sónar.

Fleiri nemendur í starfskynningu í Sjótækni

Aron og Magni að máta sig við afþrýstiklefann hjá Sjótækni
Aron og Magni að máta sig við afþrýstiklefann hjá Sjótækni
1 af 3

Sjótækni hefur í samstarfi við Tálknafjarðarskóla tekið á móti nemendum í starfskynningu í haust og síðustu tvo miðvikudaga komu þeir Aron og Magni til okkar í Sjótækni

Við kynntum fyrir þeim starfsemi fyrirtækisins í máli og myndum og sýndum þeim tól og tæki til ýmissa nota. Meðal annars sýndi Maciek þeim afþrýstiklefann og útskýrði notkun hans. Seinni daginn var farið með þá á hraðbát út að kvíum þar sem þeir fengu að skoða þvottagræjurnar um borð í Hauk BA og hvernig þær eru notaðar. Við hjá Sjótækni þökkum þeim Aron og Magna fyrir komuna og vonum að þeir hafi haft gagn og gaman af heimsókninni.