Björgunaraðgerðir á Flateyri

Samið hefur verið við Sjótækni ehf á Tálknafirði um björgunaraðgerðir vegna sokkinna báta á Flateyri og eru starfsmenn Sjótækni að taka saman búnað og tæki til að fara með á Flateyri. Undirbúningur að verkinu er í fullum gangi og starfsmenn og búnaður á leið til Flateyrar. Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri Sjótækni stýrir verkefninu.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/01/16/samid_vid_kofunarthjonustu_vegna_sokkinna_bata/

 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/01/16/munu_bjarga_thvi_sem_bjargad_verdur/

Vetrarveður á nýju ári

Báturinn Fálki bundinn við bryggju í Tálknafjarðarhöfn og bíður eftir batnandi veðri
Báturinn Fálki bundinn við bryggju í Tálknafjarðarhöfn og bíður eftir batnandi veðri
1 af 2

Sjótækni ehf á Tálknafirði óskar öllum starfsmönnum, viðskiptavinum og samstarfsaðilum gleðilegs nýárs og þakkar fyrir samskiptin á liðnu ári.

Það er óhætt að segja að nýtt ár heilsi með vetrarveðrum og það hefur sín áhrif á starfsemi Sjótækni og samstarfsaðila. Bátar Sjótækni hafa verið að mestu leyti bundnir við bryggju vegna veðurs frá því fyrir jól og lítið hægt að gera. Vonandi fer þó veðrið að ganga niður þannig að hægt verði að fara að sinna þeim verkefnum sem bíða úrlausnar. Það er þó alltaf hægt að hugga sig við það að sólin er farin að hækka á lofti og daginn að lengja. Þegar veðrið fór að ganga niður um hádegið í dag voru meðfylgjandi myndir teknar af bátnum Fálka í Tálknafjarðarhöfn og fannbörðum húsum á hafnarsvæðinu á Tálknafirði.

Sjótækni í brúarvinnu, Humidur í fyrsta sinn á Íslandi

Brúin yfir eystri ós Héraðsvatna í Skagafirði
Brúin yfir eystri ós Héraðsvatna í Skagafirði
1 af 3

Í sumar og haust hafa starfsmenn Sjótækni unnið við brúna yfir eystri ós Héraðsvatna í Skagafirði. Stálbitarnir undir brúnni voru sandblásnir og úðaðir með yfirborðsefninu Humidur sem Sjótækni hefur umboð fyrir á Íslandi. Verkið var unnið fyrir Vegagerðina og í nánu samstarfi við Acotec í Belgíu sem er framleiðandi Humidur. Verkefnið var töluvert flókið þar sem nota þurfti fljótandi vinnupalla undir brúnni til að komast að bitunum við úðun efnisins en gekk prýðilega þrátt fyrir misjafnar veðuraðstæður. Verkinu lauk í lok september og tókst vel. Þetta er í fyrsta skipti sem yfirborðsefnið Humidur er notað á Íslandi og verður spennandi að sjá hvernig það kemur út við íslenskar veðuraðstæður. Brúin er alveg niður við sjó í Skagafirði og á brúnni mæða norðanvindar sem bera með sér saltákomu með tilheyrandi veðrun stálbitanna. Það verður því áhugavert að fylgjast með í framtíðinni hvaða áhrif þessar aðstæður hafa á veðrun bitanna eftir að efnið Humidur hefur verið borið á þá.

Á ráðstefnu Vegagerðarinnar í Hörpu 01. nóvember verða starfsmenn Sjótækni með kynningu á verkinu og framkvæmd þess og veita áhugasömum frekari upplýsingar um efnið Humidur og notkunarmöguleika þess.