Eineltisáætlun Sjótækni ehf

Það er stefna Sjótækni að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin og meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.

Einelti er skilgreint í reglugerð nr. 1009/2015 sem: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynferðisleg áreitni er skilgreind í sömu reglugerð: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðg­andi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Það er hlutverk allra starfsmanna Sjótækni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað og mikilvægt að starfsmenn sýni samkennd og séu vakandi gagnvart slíkri háttsemi. Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna öðrum starfsmönnum tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi, stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum og taka á ágreiningsmálum með markvissum viðbrögðum og leita lausna strax.

Starfsmenn sem verða fyrir einelti skulu leita til næsta yfirmanns eða trúnaðarmanna eða til þjónustustjóra/ framkvæmdastjóra sé næsti yfirmaður gerandi. Allar kvartanir ber að taka alvarlega og bregðast við svo fljótt sem auðið er á faglegan hátt og í fullum trúnaði við þolanda sem ræður því hvert framhaldið verður. Gerandi í einelti getur átt von á áminningu og/eða uppsögn láti hann ekki af hegðun sinni gagnvart þolanda.

Eineltisáætlun Sjótækni ehf er samþykkt 18.05.2021

Eineltisáætlun Sjótækni ehf