Fleiri nemendur í starfskynningu

Guðbjartur kennir þeim Olu, Alexander og Nökkva að hnýta hnúta
Guðbjartur kennir þeim Olu, Alexander og Nökkva að hnýta hnúta
1 af 4

Tálknafjarðarskóli hefur boðið nemendum á unglingastigi upp á starfsnám á vorönn í samstarfi við fyrirtæki í Tálknafirði. Tilgangur verkefnisins er að kynna nemendum þær atvinnugreinar sem eru með starfsemi á Tálknafirði og hvaða menntun nýtist í starfi í þeim atvinnugreinum. Þannig geta nemendur betur gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á þessum störfum í framtíðinni. Sjótækni tekur þátt í þessu verkefni Tálknafjarðarskóla og undanfarna miðvikudaga voru þeir Patrekur, Arnór og Einar Össur hjá okkur og núna síðast voru þau Nökkvi, Alexander og Ola.

Patrekur, Arnór og Einar Össur kynntu sér tæki og tól í húsinu hjá okkur og fylgdust með þegar verið var að hífa dælustöðu upp úr Fálka BA og fara með hana inn í hús til að yfirfara hana fyrir sumarvertíðina. Auk þess var verið að hífa prammann okkar upp á bryggju þar sem notkun hans var lokið að sinni. Seinni miðvikudaginn fengu þeir svo að fara um borð í Hauk BA og prófa þvottaróbotinn okkar og skoða allt um borð í bátnum.

Nökkvi, Alexander og Ola komu til okkar miðvikudaginn 11.03.2020 og þegar þau höfðu kynnt sér starfsemi Sjótækni innandyra, prófað köfunarklefann og fleira tóku þeir Guðbjartur og Marteinn þau í kennslustund um hnúta og splæsingu. Það að kunna að hnýta Pelastik og fleiri hnúta er hverjum sjómanni nauðsynlegt og þá ekki síður að kunna að splæsa saman kaðla og bönd. Verknámið gekk vel hjá krökkunum og þau eru efnileg í hnútum og splæsingu.

Vegna hættu á veirusmiti hefur starfsnámi verið frestað um óákveðinn tíma og því koma ekki fleiri til okkar í Sjótækni meðan þetta ástand varir en vonandi verður hægt að taka upp þráðinn að nýju þegar vorar og við fáum fleiri krakka í heimsókn til okkar. Við hjá Sjótækni þökkum þeim krökkum sem hafa komið til okkar fyrir góða viðkynningu og vonum að þau hafi haft gagn og gaman af.