Sjótækni tekur þátt í prófun á umhverfisvænni ásætuvörn

Prófunarsvæðið á síðum Kafara BA, samanburður milli hefðbundinnar botnmálningar, ásætuvarnar Hripu og botnmálning án kopars
Prófunarsvæðið á síðum Kafara BA, samanburður milli hefðbundinnar botnmálningar, ásætuvarnar Hripu og botnmálning án kopars
1 af 2

Sjótækni og sprotafyrirtækið Hripa ehf eru nú í samstarfi um að prófa nýja gerð af umhverfisvænni ásætuvörn til notkunar í sjó. Sprotafyrirtækið Hripa ehf hefur með styrk frá Tækniþróunarsjóði þróað ásætuvörn án allra eiturefna, sem geta skaðað umhverfi og lífverur í sjó.  Í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða og með aðstoð frá fyrirtækjunum Arctic Fish og Egersund Ísland hefur Hripa gert prófanir með ásætuvörnina fyrir fiskeldisnet undanfarin tvö ár og eru niðurstöðurnar mjög jákvæðar.

Þegar rannsóknarskipið Kafari BA var í slipp í Njarðvík í mars s.l. var ásætuvörnin frá Hripu borin á ákveðin svæði neðan sjólínu á báðar hliðar bátsins og verður spennandi að fylgjast með hvernig hún virkar þar í samanburði við venjulega botnmálningu.

Hripa hefur sótt um alþjóðlegt einkaleyfi fyrir ásætuvörninni og eru nú margvíslegar frekari rannsóknir í gangi á virkni ásætuvarnarinnar, sem og skaðleysi gagnvart fiski og öðru sjávarlífi í samstarfi við fleiri aðila á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð.

Sjótækni leggur mikla áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif starfsemi sinnar og að efni og vörur sem fyrirtækið notar hafi sem minnst umhverfisáhrif. Það er því afar jákvætt og í samræmi við umhverfisstefnu Sjótækni að aðstoða við þróun á umhverfisvænni ásætuvörn, sem mikil þörf er fyrir.