Nýr vinnubátur Sjótækni kominn til landsins

Valur hífður frá borði flutningaskipsins í Berufirði
Valur hífður frá borði flutningaskipsins í Berufirði
1 af 6

Nýr vinnubátur Sjótækni, Valur, kom til landsins um helgina og var hífður frá borði flutningaskips í Berufirði á sunnudaginn. Framkvæmdastjóri Sjótækni, Kjartan J. Hauksson tók á móti bátnum ásamt starfsmönnum Sjótækni, þeim Guðbjarti Ásgeirssyni, þjónustustjóra og Marteini Þór Ásgeirssyni, útgerðarstjóra. Þeir sigldu síðan bátnum til hafnar á Djúpavogi þar sem var tekinn kostur og olía og síðan héldu þeir af stað til Vestmannaeyja sem var fyrsti áfangi á leið vestur til Tálknafjarðar. Kjartan er skipstjóri í ferðinni, Marteinn yfirstýrimaður og Guðbjartur yfirvélstjóri og þeir sögðu bátinn hafa reynst vel í þessari fyrstu siglingu við Íslandsstrendur og ferðin til Eyja gekk vel þrátt fyrir leiðinda veður á leiðinni.

Valur er öflugur vinnubátur sem sinnt getur þjónustu við fiskeldismannvirkin og unnið við uppsetningu nýrra kvía og festinga þeirra ásamt margskonar öðrum verkefnum sem Sjótækni fæst við. Vinnubáturinn er af gerðinni Catamaran NABCAT 1510 DD frá Moen Marin í Noregi og er 15 m langur og 10 m breiður. Vinnubáturinn er tvíbytna og búinn öflugum vélum ásamt krönum og búnaði til að setja út og strekkja kerfisfestingar fyrir kvíar. Góð aðstaða er fyrir áhöfnina um borð og fór vel um áhöfnina í þessari fyrstu siglingu bátsins frá Djúpavogi til Vestmannaeyja. Stefnt er á að sigla bátnum til Reykjavíkur og þaðan vestur á Tálknafjörð um leið og veður leyfir. Um leið og Valur kemur vestur fer hann í verkefni í Dýrafirði á vegum Arctic fish.